Forföll, veikindi og leyfi
Fjarvistir skulu tilkynntar skólanum samdægurs í síma 4117848 eða með því að foreldrar skrái sjálfir í Mentor. Séu forföll ekki tilkynnt samdægurs af forráðamanni nemanda er litið svo á að fjarvist sé óheimil.

Umsjónarkennari getur veitt nemanda leyfi í 1 – 2 daga en lengri leyfi þarf að sækja um á skrifstofu skólans með því að fylla út eyðublöð sem fá má á skrifstofu skólans eða með því að smella á tengilinn hér til hliðar -Beiðni um leyfi fyrir nemendur 

Röskum á skólastarfi vegna óveðurs - Óveður - tilmæli til foreldra

Endurgreiðsla kostnaðar vegna slysa og tjóna sem börn
verða fyrir í skipulögðu starfi á vegum Reykjavíkurborgar

Skólaakstur
Skólabíllinn fer frá Dalskóla kl. 7:50 mánudaga til fimmtudaga
8:30 föstudaga og 9:30 fyrir unglingadeild
Frá Sæmundarskóla alla daga kl 13:50, 14:00 og 14:30

Bókasafn
Bókasafnið er staðsett í miðrými skólans. Fastur opnunartími er alla daga kl. 8:00-8:30 og 13:30-14:00. Utan opnunartíma er safnð aðgengilegt nemendum í fylgd kennara.

Mötuneyti

Allir nemendur hafa aðgang að morgunmat og hádegismat í skólanum. Á morgnana er boðið upp á ókeypis hafragraut. Máltíðin í hádeginu kostar 340 krónur. Innheimt er jafnaðargjald miðað við 20 daga í mánuði, eða 6.800 krónur. Ekki er innheimt fyrir mat í júní og ágúst. Foreldrar greiða einungis skólamáltíðir fyrir tvö börn, önnur njóta 100% afsláttar. Lögð er áhersla á hollan mat samkvæmt leiðbeiningum landlæknisembættisins. Matseðilinn er að finna á heimasíðu skólans.Skráning í mötuneyti fer fram á Rafrænni Reykjavík.
Verðskrá fyrir mötuneyti grunnskólanna ásamt gæðahandbók skólamötuneyta


Fatnaður og óskilamunir
Óskilafatnaði er safnað saman á þremur stöðum í skólanum: í skáp sem staðsettur er fyrir innan nemendaskápa í inngangi eldri nemenda, í herbergi innaf inngangi yngri nemenda og á gangi íþróttaálmu. Á þessum stöðum hafa nemendur og foreldrar alltaf aðgang til að leita að týndum fatnaði. Á foreldraviðtalsdögum er óskilamunum raðað upp á borð við innganga skólans og eru þannig aðgengilegri en ella. Verðmætari óskilamundir (s.s. símar, peningaveski o.fl) eru geymdir á skrifstofu skólans. Að loknu skólaári er óskilafatnaður sem ekki hefur verið vitjað gefinn til góðgerðastofnana.

Frímínútur – gæsla
Starfsfólk er ávallt á gæslu í frímínútum nemenda. Starfsfólk á gæslu á skólalóð skal klæðast gulum vestum svo auðveldara sé fyrir nemendur að koma auga á það. Hver starfsmaður hefur ákveðið svæði til að fylgjast með á lóðinni. Gæsla er einnig í matarhléum í matsal og í búningsklefum í íþróttahúsi. Starfsfólk sundlauga sér um gæslu í búningsklefum þar.

Íþróttahús – sundlaug
Íþróttakennsla fer fram í íþróttahúsi skólans og útivið að hausti og vori. Sundkennsla fer fram í Sundlaug Grafarvogs. Nemendum er ekið með skólabíl í sund.

Fatageymslur
Nemendur í 3. – 10. bekk fá aðgang að læstum skápum fyrir föt sín og aðrar verðmætar eigur. Meirihluti skápanna er læstur með talnalás þar sem nemendur velja aðgangstölu sjálfir. Hluti er læstur með hengilás sem nemendur leigja hjá skólanum. Leigan kr. 500, fæst endurgreidd þegar lásnum er skilað í lok skólaárs. Nemendur í 1. og 2. bekk geyma fatnað sinn í fataklefa við inngang yngri nemenda.

Heimanám
Heimanám er einn af þáttunum í samvinnu heimila og skóla. Stuðningur foreldra við heimanám barnsins gefur tækifæri til jákvæðra samskipta um það sem barnið fæst við í skólanum. Mikilvægt er að skapa góðar og hvetjandi aðstæður til heimanámsins.
Helstu markmið með heimanámi eru:

 að nemendur rifji upp og þjálfi það sem þeir hafa unnið með í skólanum
 að nemendur eflist í sjálfstæðum vinnubrögðum
 að veita foreldrum tækifæri til að fá innsýn og taka þátt í námi barna sinna

Heimanám er skipulagt með tilliti til aldurs og þroska nemenda. Það er einstaklingsmiðað líkt og annað nám. Á yngri stigum er mikil áhersla á lestrarþjálfun. Upplýsingar um heimanám eru sendar foreldrum í föstudagsbréfum og í gegnum Mentor. Gangi heimanám ekki vel að mati foreldra eru þeir hvattir til að hafa samband við skólann. Í góðri samvinnu er oftast hægt að finna farsæla lausn.