Skip to content

Heimurinn að utan

Nemendur í 10. bekk fengu það verkefni fyrir stuttu að lesa kjörbók og semja ljóð um upplifun sína og tilfinningar samhliða lestrinum. Hér birtum við eitt af mörgum ljóðum sem fæddust í því verkefni. Höfundur er María Ósk Haraldsdóttir.

Heimurinn að utan

Ég sit við skrifborðið mitt á hljóðlátri nóttu,

glugginn minn veitir mér aðgang að öllu sem gerist að utan.

Fagur snjórinn fellur niður,

hann dansar í vindinum líkt og ballerína á sviði.

Hægt og rólega þekur hann jörðina,

eins og þykkt teppi sé lagt yfir heiminn.

Jólaseríur liðast um glugga og svalir,

mála allt í regnbogans litum.

Jólin eru rétt fyrir handan,

það er næstum eins og þau hafi komið hraðar en áður.

Ég veit ekki hvenær allt breyttist,

hvenær sumarið og sólin fór,

hvenær haustið með sín litríku lauf kom og fór,

hvenær veturinn og jólin tóku við.

Árið hefur flogið framhjá,

dag eftir dag sit ég við skrifborðið mitt,

fylgist með heiminum að utan og bíð,

bíð eftir deginum þegar heimurinn verður eðlilegur á ný.