Samskipti heimila og skóla
Þegar litið er til niðurstaðna rannsókna á áhrifum foreldra á nám og líðan barna þeirra í skólanum kemur í ljós að enginn einn einstakur þáttur hefur eins mikil áhrif á námsárangur, og líðan nemenda og foreldrar þeirra. Samkvæmt rannsóknum John Hattie (2009) þá má rekja um 70% af námsárangri nemenda til þátta utan skólans, ekki síst til heimilanna.
Mentor er námsumsjónarkerfi skólans. Kennarar setja þar ýmsar upplýsingar um skólastarfið, námsmatið fer fram þar og foreldrar þurfa að fylgjast vel með. Alir foreldrar fá aðgangsorð á Mentor og ef það tapast er hægt að snúa sér til skrifstofu til að fá nýtt. Vinsamlegast gætið að lykilorðinu og veitið barninu ykkar ekki aðgang að því. Unglingadeildin notar einnig „Google classroom“ til að koma upplýsingum til nemenda. Mælst er til að foreldrar noti sinn aðgang á Mentor til að tilkynna veikindi en einnig er hægt að hringja á skrifstofuna í síma 4117848.
Heimasíða skólans er fyrst og fremst upplýsinga- og fréttasíða skólans fyrir forráðamenn og nemendur. Fésbókarsíða skólans er hugsuð til að flytja rauntímafréttir og koma skilaboðum til skólasamfélagsins. Að hausti stofna umsjónarkennarar 1. bekkjar fésbókarsíðu fyrir árganginn sem mun fylgja hópnum út skólagönguna.
Foreldrar geta, í samráði við kennara, heimsótt skólann og fengið að fylgjast með skólastarfinu. Þeir þurfa að panta tíma áður og skrifa undir trúnaðarheit.
Á hverju hausti er haldið kynningarkvöld fyrir foreldra þeirra nemenda sem eru að hefja nám í 1. bekk skólans. Þar er skólastarfið kynnt og foreldrar fá tækifæri til að hitta ýmsa sem koma að hópnum. Í upphafi skólaárs eru einnig kynningarfundir fyrir aðra árganga skólans sem og unglingadeildina.
Skólaráð Sæmundarskóla fundar reglulega, fundaáætlun er sett út á heimasíðu skólans á haustin. . Hægt er að koma ábendingum um það sem betur má fara í skólastarfinu til meðlima skólaráðs sem taka málefnið fyrir á næsta fundi.
Starf foreldrafélags og bekkjarfulltrúa er skipulagt af foreldrum og er í umsjá formanns foreldrafélags sem jafnframt á sæti í skólaráði Sæmundarskóla. Aðalfundur foreldrafélagsins er haldinn á skólasetningunni og foreldrafulltrúar eru kosnir þann dag. Þeir hittast á fundi til að skipuleggja bekkjarviðburði og gera skipulag sem sett er út á heimasíðu skólans.
Umsjónarkennari er í samskiptum við foreldra um þau mál er snerta einstaka nemendur, heimanám og annað sem eingöngu snýr að starfi bekkjarins. Boðið er upp á foreldraviðtöl þrisvar á skólaári en einnig er unnt að funda oftar ef þurfa þykir.
Ef foreldri þarf að ná sambandi við kennara geta foreldrar hringt á skrifstofu skólans og lagt fyrir skilaboð um að kennari hringi í sig. Kennari hringir samdægurs eftir kennslu ef erindið er brýnt en annars í síðasta lagi daginn eftir. Foreldrar eru beðnir um að hringja ekki í kennara utan dagvinnutíma eða ónáða með að senda skilaboð í gegnum fésbókina. Jafnframt eru foreldrar beðnir um að hringja ekki á skrifstofu skólans eða í kennara með skilaboð sem ekki eru brýn s.s. að mamma eða pabbi bíði
út í bíl eða að barnið megi fara heim með einhverjum eftir skóla. Sama gildir um tölvupóst með svipuðum skilaboðum. Ganga þarf frá slíku við barnið áður en það fer í skólann.
Foreldrar geta ekki ætlast til þess að ná tali af kennara þegar hann er með nemendum eða strax eftir að kennslu lýkur. Kennarar eru gjarnan með þéttskipaða dagskrá og eru þá að sinna undirbúningi kennslu, samstarfi við aðra kennara, fundum með foreldrum og sérfræðingum, kennarafundum og endurmenntun. Ef foreldrar þurfa að ná tali af kennara er bent á að hringja á skrifstofuna en einnig er sjálfsagt að nota tölvupóstinn. Eðlilegt er að foreldrar sýni stundum tilfinningar í samskiptum sem varðar börnin, það dýrmætast sem þeir eiga. Við minnum samt á að gott samstarf skilar árangri, vinsamlegast ekki skrifa bréf í reiði, yfirleitt má erindið bíða þar til hún rennur. Það sem þú lætur fara frá þér í tölvupósti lýtur sömu lögum og annað ritað mál. Við mælum gegn því að reyna að ræða viðkvæm, persónuleg mál í tölvupósti eða á fésbókinni. Ekki er hægt að eyða/breyta bréfi sem hefur verið sent, í þessum tilfellum er betra að panta viðtal.
Kennarar svara tölvupósti foreldra að lokinni kennslu og að jafnaði innan tveggja daga frá því hann berst. Foreldrar geta ekki treyst því að tölvupóstur sem þeir senda kennara verði lesinn samdægurs og því er betra ef erindið er mjög brýnt að hringja á skrifstofu skólans.
Við þessi skrif er stuðst við Viðmið Skóla- og frístundasviðs um foreldrasamskipti sem sjá má hér.
Viðmið um samskipti foreldra og kennara